1929
Þetta ár skrifar Magnús Þorgeirsson til Pfaff verksmiðjanna í Þýskalandi og reynir að fá keypta eina saumavél fyrir systur sína. Þeir segjast ekki geta selt eina vél en sé hann tilbúinn til að kaupa sex vélar geti hann fengið umboðið fyrir Ísland!
Þann 28.október það ár er fyrsta saumavélin seld – verslunin er þá til húsa í kjallaranum heima hjá Magnúsi að Bergstaðastræti 7.
1933
Magnús kaupir Laugaveg 4 og fimm árum seinna fær hann leyfi til að byggja 3ja hæða hús í kartöflugarðinum fyrir aftan húsið, en það var seinna skráð Skólavörðustígur 1a. Eftir stríð eru svo byggðar 2 hæðir ofan á þetta hús og 5 hæðir byggðar á lóðinni Skólavörðustíg 3. Í þessum húsum er svo Pfaff til húsa til ársins 1979.
1940
Á striðsárunum var ekki hægt að fá neinar vörur frá Þýskalandi og flutti þá fyrirtækið inn ýmiss konar vörur - ferðatöskur, barnavagna, sprengiefni, ullargarn o.fl. o.fl.
1950
Hér er aftur komið á samband við Pfaff og á þessu ári fær Magnús einnig umboð fyrir þýsku Stoll iðnaðarprjónavélarnar, sem síðan voru helstu vélarnar á íslenskum prjónastofum um áratugaskeið. Var þessi hluti af rekstri fyrirtækisins mjög þýðingarmikill árum saman eða þar til sauma- og prjónaiðnaðurinn hér á landi svo til hvarf í kringum 1990.
Á þessum áratug eru innflutningshöft og lítið hægt að flytja inn Pfaff vélar, en þá voru jafnframt vöruviðskipti við Austantjaldslönd og einu saumavélarnar sem fengust voru Lada og Minerva saumavélar frá Tékkóslóvakíu. Því reynir því Pfaff ýmislegt og flytur t.d. inn mikið af marmaramulningi til að setja utan á hús o.fl. og eru margar blokkir í vesturbænum í Reykjavík klæddar með marmaramulningi frá Pfaff
1958
Byrjar svo ævintýrið með Passap prjónavélarnar frá Sviss, en á nokkrum mánuðum seldust þúsundir af þessum vélum og allt fram að aldamótunum 2000 þegar þessi verksmiðja lokaði eins og margar aðrar og var aðalástæðan samkeppnin við flísið sem þá kom á markaðinn.
1961
Er innflutningur loksins gefinn frjáls og hægt að flytja inn svo til hvað sem er. Var það mikil breyting og loksins gat fyrirtækið farið að bjóða ýmsar gæðavörur á ný.
1962
Tekur Pfaff við umboðinu á Sennheiser heyrnartólum og hljóðnemum, en prófessor Sennheiser hafði verið yfikennari við háskólann í Hannover þar sem Leifur sonur Magnúsar var við nám í rafmagnsverkfræði. Reyndist Sennheiser umboðið vera upphafið að hljóðdeild PFAFF en fyrirtækið hefur um áratugaskeið þjónustað allar helstu sjónvarps- og útvarpsstöðvar landsins, studio, leikhús, kirkjur o.fl.o.fl með hljóðlausnum.
1963
Kristmann sonur Magnúsar tekur við sem framkvæmdastjóri Pfaff.
1967
Þá tekur til næsta ævintýri - CANDY ævintýrið - en á fyrsta árinu seldi Pfaff yfir 1.000 þvottavélar og á næstu fjórum áratugum seldi fyrirtækið hátt í 50.000 Candy tæki á Íslandi.
1970
Á þessu tímabili er mikill innflutningur á alls konar iðnaðarvélum fyrir sauma og prjónastofur, bæði saumavélar, prjónavélar, ýfingarvélar, strauborð og færibönd
1978
Þetta ár tekur Pfaff við umboðinu fyrir BRAUN smáraftæki: rakvélar, hárblásara o.fl.
1979
Á 50 ára afmæli fyrirtækisins flytur Pfaff í Borgartún 20 og er þar fram til ársins 1995 er það flytur að Grensásvegi 13.
1983
Magnús Þorgeirsson andast 81 árs að aldri.
1986
Tollar á á rafmagnstæki eru lækkaðir þó nokkuð fyrir tilstilli verkalýðsfélaga í kjarasamningum! - en Kristmann hafði ásamt Félagi raftækjasala barist fyrir þessu við stjórnvöld í áratug án mikils árangurs. Það þurfti því framsýni verkalýðsforystunnar til að sjá að kaupmáttur launa gat aukist fyrir tilstilli lækkunar innflutningsgjalda. Þessi lækkun var þó að hluta dregin til baka stuttu seinna er tollum sem áður höfðu verið lagðir á þessi tæki var breytt í vörugjöld og hækkuðu þá sumar þessar vörur á ný
1989
Pfaff tekur við umboðinu fyrir Oster hárklippurnar af Pennaviðgerðinni, en þetta eru enn mest notuðu hárklippur hjá hársnyrtistofum landsins.
1993
Tekur Pfaff við umboðinu fyrir SINGER saumavélarnar, en bæði var að SÍS, sem verið hafði með umboðið varð gjaldþrota, og einnig að Pfaff og Singer verksmiðjurnar voru komnir í samvinnu erlendis.
1994
Margrét Kristmannsdóttir tekur við sem framkvæmdastjóri Pfaff og 3ja kynslóð tekur alfarið við rekstrinum.
1995
Pfaff flytur úr Borgartúni 20 að Grensásvegi 13
1998
Pfaff tekur við Hoover umboðinu, en Fálkinn vildi hætta í heimilistækjum og svo hafði Candy keypt Hoover verksmiðjurnar í Evrópu. Sama ár tekur fyrirtækið við umboðinu fyrir Beurer hitapúða o.fl, en Raforka hafði haft það umboð og bað fyrirtækið að taka við því þegar eigandinn hætti rekstri vegna aldurs.
2001
Þetta ár sameinast Husqvarna og Pfaff í eitt fyrirtæki og nokkrum árum seinna bætist svo Singer í hópinn. Upp úr þessu býður Þórhildur Gunnarsdóttir í Völusteini okkur að taka við Husqvarna umboðinu og varð það úr með því fororði að hún myndi fylgja með!
2002
Þetta ár kaupir Pfaff ljósafyrirtækið Borgarljós og fer út í að selja ljós og lýsingarbúnað og breytir nafni sínu í Pfaff-Borgarljós. Hefur þessi deild vaxið jafnt og þétt og er Pfaff nú með eina stærstu ljósaverslun landsins.
2005
Pfaff tekur yfir NEC Philips umboðið fyrir símkerfi af Nýherja og tekur yfir sölu og þjónustu símakerfa hjá mörgum stærstu fyrirtækjum landsins.
2006
Pfaff fer aftur til "upprunans" og fellir niður "Borgarljós" úr nafni fyrirtækisins enda metið svo að allir viðskiptavinir Borgarljósa viti nú hvert eigi að leita til að kaupa ljós.
2008
Hrunið skellur á - en Pfaff fer í gegnum það án þess að nokkur tapi einni einustu krónu á fyrirtækinu. Þegar landið lokast eiga mörg fyrirtæki í vandræðum með að fá vörur, en birgjar Pfaff standa þétt við bakið á fyrirtækinu og senda vörur til landsins þrátt fyrir að ekki sé hægt að senda greiðslur úr landi. Skilaði sér hér að flestir birgjar áttu að baki áratugalanga viðskiptasögu við Pfaff og traust ríkti á milli aðila. Það sannaðist þvi að gott orðspor er og verður alltaf gulls ígildi í viðskiptum.
2009
Fyrirtækið fagnar 80 ára afmæli sínu með glæsibrag og átti mjög gott rekstrarár enda tók sala á saumavélum flug eftir hrunið.
2010
Pfaff breytir áherslum í rekstri sínum og ákveður að hætta sölu á þvottavélum og stærri hvítum heimilistækjum eftir rúmlega 40 ára samstarf við Candy. Candy umboðið flyst yfir til Einars Farestveit í mjög góðri samvinnu við Candy á Ítalíu.
2011
Pfaff er útnefnt eitt af "framúrskarandi fyrirtækjum" á Íslandi - eitt af aðeins 244 fyrirtækjum. Félagið greiddi niður allar langtímaskuldir sínar og er því skuldlaust - staða sem mörg fyrirtæki vildu sennilega gjarnan vera í.
2012
Pfaff hefur verið með umboð fyrir Sennheiser heyrnartól og hljóðnema í 50 ár.
2014
Pfaff fagnar 85 ára afmæli.
2015
Pfaff heldur áfram þróun fyrirtækisins sem hófst árið 2010 og dregur sig að mestu út úr smáraftækjamarkaðinum. Pfaff sem hafði verið með Braun umboðið síðan 1967 ákveður að leggja það til við Braun í Þýskalandi að umboðið færist til Ormsson. Upp frá því hefur fyrirtækið verið rekið í sex deildum þ.e. saumavéladeild - ljósadeild - hljóðdeild - símadeild - heilsuvörur og þjónustu.
2018
Pfaff hefur undanfarin ár - allar götur síðan 2011 verið útnefnt "Framúrskarandi fyrirtæki" af Creditinfo. Eingöngu 84 fyrirtæki á Íslandi hafa fengið þessi útnefningu frá upphafi.
2019
Pfaff fagnar 90 ára afmæli - eitt elsta fjölskyldufyrirtæki landsins